Leikandi og leifrandi sumartríó. Camerarctica 5. júlí 2017

Efnisskráin samanstendur af litríkum tríóum fyrir klarinettu, fiðlu og píanó þar sem heyra má ólík stílbrigði tónlistar millistríðáranna m.a áhrif frá franskri kaffihúsa og götutónlist, jazzi , armenskum þjóðlögum, argentískri tangótónlist og klezmer.

Tónleikarnir hefjast á skemmtilegri Svítu í fimm stuttum þáttum eftir franska tónskáldið Darius Milhaud en Svítuna mætti tengja við litríka og leikandi leikhústónlist þar sem mörgum stílbrögðum ægir saman. Síðan verður leikið fallegt og vinsælt tríó eftir Aram Khachaturian sem byggir á seiðandi og töfrandi armenskum þjóðlögum og eldfjörugum dönsum. Einnig heyrist á tónleikunum undurfagur einþáttungur eftir eitt mikilvægasta tónskáld Bandaríkjana Charles Ives. Í lok tónleikana verða svo flutt tvö stutt verk og öllu villtari en það er Tango Tríó eftir Miguel del Aguila og síðan Freylakh en þar tekur klezmertónlistin völdin í fjörugu tríói eftir Paul Schoenfield.

Tónlistarhópurinn Camerarctica hefur starfað frá árinu 1993. Félagar hópsins hafa meðal annars leikið með Sinfóníuhljómsveit Íslands, kennt hljóðfæraleik við tónlistarskólana á höfuðborgarsvæðinu og komið víða fram sem einleikarar.

Camerarctica hefur vakið sérstaka athygli og hlotið lofsamlega dóma fyrir flutning sinn á verkum Mozart á árlegum kertaljósatónleikum í kirkjum á höfuðborgarsvæðinu og á strengjakvartettum Shostakovitch og Bartók á tónleikum Kammermúsíkklúbbsins í Reykjavík.

Hópurinn hefur m.a leikið á Myrkum músíkdögum, Listahátíð í Reykjavík, Norrænum músíkdögum, Kammermúsíkklúbbnum, 15:15 Tónleikum, Norrænum sumartónleikum í Norræna húsinu, Salisbury hátíðinni í Bretlandi og gefið út geisladisk með verkum eftir W. A. Mozart.

Tríó Camerarctica skipa þau Ármann Helgason klarinettuleikari, Hildigunnur Halldórsdóttir fiðluleikari og Ingunn Hildur Hauksdóttir píanóleikari.

 

Efnisskrá:

Darius Milhaud Svíta (1936)

  1. Ouverture
  2. Divertissment
  3. Jeu
  4. Introduction et Finale

Aram Khachaturian Trió (1932)

  1. Andante con dolore, con molto espressione
  2. Allegro
  3. Moderato

Charles Ives                   Largo (1934)

Miguel del Aguila         Tango Trió (2002)

Paul Schoenfield           Freylakh (1990)

Facebookmail