Konurnar og orgelið. Sigrún Magna Þórsteinsdóttir 19. júlí 2017

 

Á tónleikunum verður flutt orgeltónlist samin af konum og spannar efnisskráin nokkrar aldir af tónlist kvenna í ýmsum stílum, stór verk og lítil, hugljúf og ljóðræn en líka gáskafull, dansandi og dramatísk.

Margar kvennanna eru frumkvöðlar og voru á undan sinni samtíð. Má þar nefna Florence B. Pryce sem var bandarísk blökkukona og varð fyrsta blökkukonan til að fá viðurkenningu sem tónskáld í Bandaríkjunum. Hún átti glæstan feril sem tónskáld og organisti og hún þótti mjög fær í að leika tónlist með þöglum myndum bíóhúsanna. Fanny Mendelssohn lifði í skugga bróður síns og Elfrida Andree fékk lögum breytt í Svíþjóð til að mega gerast organisti. Einnig mun ég flytja ný orgelverk, óútgefin, samin af Lisu Dynnesen, Láru Sóleyju Jóhannsdóttur og sjálfa mig.

Sigrún Magna Þórsteinsdóttir stundaði tónlistarnám í Tónlistarskólanum á Akureyri, Tónlistarskólanum í Reykjavík, við Tónskóla þjóðkirkjunnar og í Konunglega danska tónlistarháskólanum í Kaupmannahöfn. Þaðan lauk hún meistaraprófi í kirkjutónlist undir handleiðslu prof. Bine Bryndorf. Í námi sínu lagði hún sérstaka áherslu á barnakórstjórn, tónlistaruppeldi barna og kenningar um tónlistarþroska barna. Hún heldur reglulega tónlistar-námskeið fyrir foreldra ungbarna.

Sigrún hefur starfað sem organisti og kórstjóri í Reykjavík, í Kaupmannahöfn og á Akureyri. Sigrún starfar nú sem organisti við Akureyrarkirkju, við Möðruvalla-klausturskirkju í Hörgárdal og kennir við Tónlistarskólann á Akureyri. Hún hefur haldið fjölda tónleika á Íslandi og erlendis bæði sem einleikari, meðleikari og kórstjóri og leikið inn á hljómdiska. Sigrún hefur sótt fjölda námskeiða m.a. hjá Olivier Latry, Hans-Ola Ericsson, Michael Radulescu og Mattias Wager. Sigrún er framkvæmdastjóri Sumartónleika í Akureyrarkirkju og Kirkjulistaviku í Akureyrarkirkju. Sigrún fékk úthlutað listamannalaunum frá íslenska ríkinu árið 2016.

Facebookmail