Mitt er þitt. Duo Atlantica 2. ágúst 2017

Á tónleikunum „Mitt er þitt“ munu Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir mezzósópransöngkona og spænski gítarleikarinn Francisco Javier Jáuregui flytja þjóðlög frá Íslandi, Bretlandseyjum og Spáni, þar á meðal á basknesku, valensíanó, kastilísku og ladínó, sem var tungumál gyðinganna sem bjuggu á Spáni áður en þeim var úthýst þaðan árið 1492. Flest laganna eru flutt í útsetningum eftir Javier og vísar titill tónleikanna í ljóðlínur Rósu Guðmundsdóttur „mitt er þitt og þitt er mitt, þú veist hvað ég meina“ í hinu ástsæla íslenska þjóðlagi Vísur Vatnsenda-Rósu sem Jón Ásgeirsson útsetti. Mörg sönglaganna má finna á geisladiskunum Mitt er þitt – íslensk og spænsk sönglög (12 tónar) og Secretos quiero descubrir – Spanish Songs for Voice, Violin and Guitar (ABU Records) með Guðrúnu og Javier.

Um listamennina

 

GUÐRÚN JÓHANNA ÓLAFSDÓTTIR mezzósópran hefur komið fram sem einsöngvari á tónleikum vítt og breitt um Evrópu og í Suður-Ameríku í tónleikasölum svo sem Henry le Boeuf Hall í Bozar í Brussel, Auditorio Nacional de Música de Madrid, Teatro Real í Madrid, Glinka sal Fílharmóníunnar í St. Pétursborg, Coliseo í Buenos Aires og Wigmore Hall og Royal Festival Hall í London. Hún hefur sungið m. a. með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Bachsveitinni í Skálholti, Kammersveitinni Ísafold, Caput, Nordic Affect, Sonor Ensemble, Sinfóníuhljómsveit Madrídar, St Petersburg State Symphony Orchestra og Philharmonia Orchestra í London.

Guðrún hefur frumflutt fjölmörg tónverk eftir íslensk og erlend tónskáld, sem sum hver hafa verið samin sérstaklega fyrir hana. Hún hefur sungið í óperum á Spáni, Bretlandi og Íslandi, hlutverk eins og Öskubusku, Dorabellu, Rosinu, Romeo, Prins Orlowsky, Carmen, Sesto, Tónskáldið og titilhlutverkið í Stígvélaða kettinum eftir Montsalvatge í Teatro Real í Madríd. Guðrún stundaði söngnám hjá Rut Magnússon í Tónlistarskólanum í Reykjavík og hjá Lauru Sarti í Guildhall School of Music and Drama í London, en þar hlaut hún meistaragráðu í söng og lauk óperudeild skólans. Hún hefur einnig sótt einkatíma í söng hjá Aliciu Nafé í Madríd. Hún hefur hlotið ýmis verðlaun í alþjóðlegum söngkeppnum, svo sem Kathleen Ferrier ljóðasöngsverðlaunin í Wigmore Hall í London, ljóðasöngsverðlaunin í alþjóðlegu söngkeppninni í Zamora, þriðju verðlaun í Concorso di Musica Sacra í Róm og Joaquín Rodrigo verðlaunin í Madríd. Hún hefur hlotið starfslaun listamanna í eitt ár í tvígang.

Guðrún hefur sungið inn á geisladiskana: Mitt er þitt – íslensk og spænsk sönglög, Grieg-Schumann, Apocrypha (Íslensku tónlistarverðlaunin) Iepo Oneipo Heilagur Draumur (Editor´s Choice, Gramophone Magazine), Grannmetislög, Unto Us, Sigvaldi Kaldalóns: Ég lít í anda liðna tíð, English and Scottish Romantic Songs for Voice and Guitar, Hjálmar H. Ragnarsson Tengsl , Áskell Másson (Naxos), Óperan Ragnheiður og Secretos quiero descuvrir – Spanish Music for Voice, Violin and Guitar. www.gudrunolafsdottir.com

Spænski gítarleikarinn og tónskáldið FRANCISCO JAVIER JÁUREGUI útskrifaðist með meistaragráðu frá Guildhall School of Music and Drama í London. Gítarkennarar hans þar voru Robert Brightmore og David Miller, en hann lærði einnig spuna hjá David Dolan og á tíorbu hjá David Miller. Áður stundaði hann nám í Los Angeles og Madríd. Javier hefur komið fram á tónleikum, bæði sem einleikari og flytjandi kammertónlistar, á Spáni, Ítalíu, Möltu, Íslandi, í Englandi, Skotlandi, Frakklandi, Bandaríkjunum og Suð-Austur Asíu í tónleikasölum svo sem St Martin in the Fields, Konungshöllinni í El Pardo á Spáni, St. James’ Palace og The Linbury Studio Theatre Covent Garden í London og Auditorio Nacional í Madríd. Hann hefur flutt gítarkonserta eftir Vivaldi og Rodrigo (Concierto de Aranjuez) með sinfóníuhljómsveitinni Schola Camerata á Spáni og komið fram sem einleikari með Sonor Ensemble, en þá hljómsveit skipa hljóðfæraleikarar úr Þjóðarsinfóníuhljómsveit Spánar. Javier kemur reglulega fram með Guðrúnu Jóhönnu Ólafsdóttur mezzósópran og Elenu Jáuregui fiðluleikara, en þau Elena mynda Roncesvalles dúóið. Javier hefur leikið inn á geisladiskana Mitt er þitt, English and Scottish Romantic Songs og Secretos quiero descubrir. Hann hefur tekið þátt í verkefnum í tónlistarmenntun á vegum Wigmore Hall í London frá árinu 2001 og kennir klassískan gítarleik við St. Louis University í Madríd, þar sem hann er yfirmaður tónlistardeildarinnar. www.javierjauregui.com

Facebookmail