Dagskrá 2018

4. júlí. Olga Vocal Ensemble – It‘s a Womans World

Þema tónleikanna er femínismi þar sem listakonum síðustu 1000 ára er fagnað. Á efnisskránni eru meðal annars lög eftir Hildgard von Bingen sem fædd var árið 1098 og Barböru Strozzi sem var uppi á 16. öld. Einnig verða flutt lög sem eru hvað þekkust í flutningi frægra söngkvenna, þar ber að nefna Ninu Simone, Édith Piaf og Billie Holliday. Einnig eru á efnisskránni fjögur lög sem samin voru sérstaklega fyrir Olgu. Fjölbreytni í lagavali og tónlistarstíl ræður ríkjum og allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi.

Sönghópurinn Olga Vocal Ensemble hefur verið starfræktur síðan árið 2012 en hópurinn hélt sína fyrstu tónleika á Íslandi sumarið 2013 og hefur heimsótt Ísland á hverju ári síðan þá. Hópurinn er skipaður 5 strákum sem allir eru búsettir í Hollandi. í Olgu eru Hollendingarnar Jonathan Ploeg og Arjan Lienaerts, Englendingurinn Matthew Lawrence Smith, rússneski Bandaríkjamaðurinn Philip Barkhudarov og Íslendingurinn Pétur Oddbergur Heimisson.

#heforshe #itsawomansworld

 

11. júlí. Tourlou music – Þjóðlagatónlist á nýjan hátt

Tourlou er alþjóðlegt þjóðlagatríó með aðsetur í Utrecth, Hollandi. Meðliðim þess eru Mayumi Malotaux, Anna Vala Ólafsdóttir og David Alameda Márquez. Frá árinu 2016 hefur tríóið safnað, útsett og flutt þjóðlagatónlist frá hinum ýmsu Evrópulöndum og víðar. Tríóið flytur tónlistina á tvær fiðlur, mandólín, viola d´amore og selló auk þess sem allir syngja. Lögin eru flutt á meira en 10 mismunandi tungumálum með formála þar sem tónlist og texti er útskýrð fyrir áheyrendum.

 

18. júlí. Magga Stína og félagar

Magga Stína ásamt hljómsveit flytur frumsamið efni í bland við verk annarra.  Magga Stína er söngkona, leikkona, kennari, sjónvarpsmaður og ýmislegt fleira. Hún hefur gefið út tónlist með hljómsveitunum Hringjum og Risaeðlunni, með Megasi og undir eigin nafni, auk þess að syngja inn á fjölda hljómplatna með ýmsum tónlistarmönnum.

 

25. júlí. Ösp og Örn Eldjárn ásamt Valeria Pozzo

Söngkonan og lagasmiðurinn Ösp Eldjárn á rætur sínar að rekja norður í Svarfaðardal þar sem hún ólst upp í mikilli tónlistarfjölskyldu. Hún hóf snemma að syngja og var farin að koma fram með foreldrum sínum snemma á unglingsárum. Árið 2009 stofnaði hún ásamt bróður sínum, Erni Eldjárn og fleirum alþýðu og suðurríkja hljómsveitina Brother Grass sem gaf út tvær vinsælar plötur. Hún gaf út plötu með frumsömdum lögum, Tales from a poplar tree, árið 2017.  Með henni á plötunni spila einmitt bróðir hennar Örn (gítar og söngur) og ítalski fiðluleikarinn, söngkonan og lagahöfundurinn Valeria Pozzo.
Á tónleikunum munu þau flytja lög af plötu Aspar auk laga eftir Valeria.

1. ágúst. Minningarstund um Muff Worden.

Sumartónleikaröðin Bláa kirkjan á Seyðisfirði fagnar í ár tuttugu ára afmæli sínu. Af því tilefni verður sett saman metnaðarfull hátíðardagskrá þar sem minningu annars stofnanda hennar, tónlistarkennarans bandaríska, Muff Worden, verður heiðruð. Muff var fyrstu árin aðaldriffjöður tónleikaraðarinnar en hún lést árið 2006, langt fyrir aldur fram.

Dagskráin verður blanda af óbundnu máli og tónlistarflutningi. Um tónlist sjá þau Bergþór Pálsson, Diddú og Anna Guðný Guðmundsdóttir. Þau eru landsmönnum löngu kunn og hafa margoft komið fram í Bláu kirkjunni.

Facebookmail