Select Page

Muff Worden

Saga Muff Worden, stofnanda Bláu kirkjunnar á Seyðisfirði
Hér á eftir fer texti og myndir sem Rannveig Þórhallsdóttir tók saman.

Bakgrunnur Muff

Í glugga Bláu kirkjunnar á Seyðisfirði hékk um árabil þessi texti:
„Ef þig langur að skoða á kirkju og kirkjan er lokað, klappaðu á hurðina á Ránargötu 3 – húsið rétt hjá Shell, ljósbrúnt með græna þakkina. Ef gráa jeppa er ekki við húsið, bara komdu tilbaka seinna, eða spyrja á Pósturinn.“

Hin elskulega og hjartahlýja Ethelwyn Worden, öðru nafni Muff, átti heiðurinn að þessum orðum, þessari skemmtilegu íslensku – sem vinir hennar kölluðu „muffísku.“ Hún kom eins og ferskur andblær inn í bæjarlífið á Seyðisfirði árið 1997, þar sem hún bjó og starfaði í níu ár en lést langt fyrir aldur fram, rúmlega sextug, þann 25. ágúst 2006.

Hennar er sárt saknað, sérstaklega af Seyðfirðingum, sem urðu margir hverjir góðir vinir hennar. Þessi skörulega kona setti mikinn svip á bæinn og náði að koma ótrúlega miklu í verk á þeim tíma sem hún bjó og starfaði á Íslandi. Eitt af því var að skapa hina eftirtektarverðu tónlistarseríu Bláu kirkjuna á Seyðisfirði, þar sem fjöldi þekktra tónlistarmanna, bæði erlendra og hérlendra, hefur komið fram frá árinu 1998.

En hver var þessi kona, hvaðan kom hún og hvers vegna endaði hún á  Seyðisfirði? Hún hét í raun Ethelwyn Worden – en yfirleitt alltaf kölluð Muff – og fæddist 17. janúar 1943 á austurströnd Bandaríkjanna, í Fíladelfiu í Pennsylvaniuríki. Hún var þriðja í röðinni af fjórum systkinum sem hétu Dexter, Jenna og Gretchen.

Faðir Muff, Warren L. Worden, var olíuverkfræðingur hjá Texaco, en móðirin, Mildred Elise Boericke Worden, var óperusöngkona. Fjölskyldan bjó víða um heim vegna starfa fjölskylduföðurins. Muff bjó frá 2ja til 5 ára aldurs í Shanghai í Kína, frá 6 ára til 9 ára í Tórínó á Ítalíu og 13 ára til 22 ára aldurs í Lima í Perú. Einnig bjó hún á Filippseyjum og í Maryland og Pennsylvaníuríki í Bandaríkjunum.

Muff naut góðs af veraldarflakki sínu á þann hátt að hún var víg á óvenju mörg tungumál, hún talaði frönsku, spænsku, þýsku og ítölsku. Einnig lærði hún velsku og gelísku að ógleymdri íslenskunni.

muff_warden_blue_church_seydisfjordur_iceland_1

Mynd 1: Leirstytta af Muff Worden sem ungri stúlku. Varðveitt á Bókasafni Seyðisfjarðar. | Mynd: Sólveig Sigurðardóttir.

muff_warden_blue_church_seydisfjordur_iceland_2

Mynd 2: Systurnar Jenna, Muff og Gretchen Worden, ungar að árum.

muff_warden_blue_church_seydisfjordur_iceland_3

Mynd 3: Fróðleiksfúsu systurnar Muff og Gretchen.

muff_warden_blue_church_seydisfjordur_iceland_4

Mynd 4: Muff á jólunum 2004

muff_warden_blue_church_seydisfjordur_iceland_5

Mynd 5: Gretchen á jólunum 2004

Dexter og Jenna eru eftirlifandi af systkinahópnum og búa í Bandaríkjunum. Gretchen lést hins vegar árið 2004, aðeins 56 ára að aldri, eftir stutt veikindi. Á bréfum Muff má sjá að Gretchen þurfti að gangast undir mergskipti skömmu fyrir andlát sitt. Læknar skoðuðu möguleikana á því að bæði Jenna og Muff myndu gerast merggjafar, en til þess kom þó ekki. Andlát Gretchen var Muff mjög erfitt, þar sem þær höfðu ætíð verið nánar.

Gretchen var framúrskarandi á sínu sviði, ekki ósvipað hinni músíkölsku Muff. Hún starfaði sem safnstjóri yfir Mutter Museum of medical oddities, við College of Physicians í Philadelphiu, var vel þekkt í heimalandi sínu og kom nokkrum sinnum fram í sjónvarpsþætti David’s Letterman sem og í heimildarþáttum hjá BBC. Þegar Gretchen tók við sem safnstjóri Mutter Museum of medical oddities árið 1982 voru gestir safnsins nokkur hundruð, en voru komnir yfir 60.000 árið sem hún lést.

muff_warden_blue_church_seydisfjordur_iceland_6

Mynd 6. Muff, Gretchen, Chala og Jenna í Bandaríkjunum árið 2004.

OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Mynd 7. Hin litaglaða Muff spilar á litla flautu, árið 2004.

OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Mynd 8. Hin litaglaða Muff spilar á hörpu, árið 2004.

muff_warden_blue_church_seydisfjordur_iceland_9

Mynd 9. Muff á Fáskrúðsfirði, fyrir utan safn Fransmanna á Íslandi.

En aftur að Muff. Hún varð stúdent í Perú 19. ára og menntaði sig síðan í tónlist, með B.Mus í söng frá Temple University í Fíladelfíu og stundaði framhaldsnám í Temple University; Univ. of Maine í Orono og Harvard University í söng og tónlistarsögu – þó að ekki hafi hún náð að ljúka við mastergráðu þaðan.

Lengst af starfsævi Muff vann hún í Bandaríkjunum. Frá 1969-1980 starfaði hún við kórstjórnun og raddþjálfun við Wesley College í Dover. Árin 1981-1983 raddþjálfaði hún stúlkur í einkaskóla í Wellesley, ásamt því að sjá um skólakórinn og uppsetningu á leiksýningum. Einnig sinnti hún einkakennsku árin 1981-1985 við Swedenborg School of Religion í Newton. Í Camden starfaði hún við hópraddþjálfun í fullorðinsfræðslu og 1984 kenndi hún á vikulöngum tónlistarnámskeiðum fyrir eldri borgara á Englandi, Skotlandi, Íslandi og Wales.

Muff starfaði einnig sem tónlistarkennari og upplýsingarfulltrúi fyrir tónleikaraðir um árabil; fyrir balletthópa og leikhús í Delaware, Pennsylvaniuríki, Massachusetts og Maine. Hún var píanóundirleikari í Kent Country Theatre Guild, Delaware Regional Ballet, Dover Ballet Theatre og Écarté nútímastúdíói, aðstoðartónlistarstjóri Dover Community Theatre, Neponset Choral Society, Kent County Choral Society og Century Clut Gilbert og Sullivan Society. Hún starfaði sem ljósameistari við nokkur leikhús, tónleikahús og ballettónleika í Austur-Bandaríkjunum, sérstaklega í Massachusetts og Delaware.

Dover í Delawere var heimabær Muff en veröldin öll í raun heimkynni hennar. Hún dvaldi í Kína árin 1945 til 1949, var 2ja ára þegar fjölskyldan flutti þangað og þótti ferðalagið eftirminnilegt. Fjölskyldan fór með fraktskipi frá Houston í Texas, um Panamaskurðinn. Í viðtali við Ragnhildi Rós Indriðadóttur, sem birtist í Glettingi 1. tbl. árið 2001, minnist Muff þess er móðir hennar vakti hana upp til að sjá mannvirkið og öll hliðin sem ferðuðust upp og niður. Hún minnist þess einnig að hafa séð fljúgandi fiska við hlið skipsins, sem hún upplifði sem mikið ævintýri.

Á þessum árum var Kína lokað land, en fyrir heppni komst fjölskyldan í burtu og flutti þá til Torino á Ítalíu, þar sem þau dvöldu í fjögur ár. Ekki er vitað hvar fjölskyldan bjó næstu þrjú ár, líklega í Bandaríkjunum, en árið 1956 fluttu þau til Lima í Perú, þar sem Muff stundaði menntaskólanám. Árið 1967 flutti fjölskyldan aftur til Bandaríkjanna þar sem Muff hóf nám í háskóla og starfaði síðar sem kennari.

Í Maine, í bæ á austurströndinni að nafni Camden, var fjörugt tónlistarlíf og hafði Muff nóg að gera sem söngvari, hörpuleikari og kennari. En henni líkaði ekki að búa í borg og leitaði því að smábæ, þar sem hún gæti sest að til frambúðar. Líklega hefur hana þó ekki grunað að litli bærinn Seyðisfjörður, á Íslandi af öllum stöðum, yrði fyrir valinu.

Fjölskylda Muff var mjög tónelsk. Móðir Muff lærði óperusöng áður en hún gifti sig og þó að hún hafi hætt náminu hélt hún áfram að spila á píanó og syngja fyrir fjölskyldu sína. Börnin spiluðu með á blokkflautu og gítar og pabbi Muff tók undir með drynjandi bassaröddu. Muff og móðir hennar, Mildred Elise, voru báðar með kontra-alt rödd og litla systir hennar var messó-sópran. Móðir Muff kenndi henni á píanó þar til hún var átta ára, en þá hóf hún nám hjá kennara í Ítalíu, þar sem þau bjuggu á þeim tíma.

Leið Muff virtist á unglingsárunum ekki ætla að liggja á vegi tónlistarinnar. Hún stundaði íþróttir í tómstundum en ekki tónlist að ráði, en hélt þó tryggð við kirkjukórinn sinn. Á háskólaárunum stefndi hún á að læra frönsku, en fannst tungumálakennslan í háskólanum sínum ekki nógu góð. Á sama tíma tók nýr kórstjóri við stjórn kirkjukórsins og þá gerðist eitthvað í huga Muff. Nýi kórstjórinn var meðlimur í enn stærri kór sem hét „Singing city“, og æfði í kirkjunni á föstudagskvöldum. Muff var beðin um að sjá um að opna og loka kirkjunni á þessum kvöldum. Hún hélt því síðar fram að kórinn hefði verið einn sá besti í Bandaríkjunum og hafi hún setið þessi föstudagskvöld dolfallin yfir söngnum – og ekki fór mikið fyrir „unglingaveiki“ hjá ungri konu sem eyddi föstudagskvöldum svona!

Eitt kvöldið kom kórstjórinn til hennar og bað hana um að syngja með – og söng Muff yfir öxlina á honum, með rödd sem að hennar sögn var eins og sykurpúði – ekkert nema loft og enginn tónn!  Upp frá þessu leiðbeindi kórstjórinn Muff í söng og hafði hún mikið álit á leiðbeinanda sínum. Eftir ár hvatti kórstjórinn hana að hefja háskólanám í tónlist. Hún hafði ekki mikla trú á sjálfri sér í því hlutverki, en lét þó til leiðast og hóf nám við Temple University í söng og píanóleik. Muff var því um tvítugt þegar hún hóf söngnám. Að námi loknu fór hún að kenna við háskóla í Delaware, í höfuðborginni Dover. Þar kenndi hún í tólf ár við tónlistardeild lítils háskóla. Muff stundaði einnig framhaldsnám í kórstjórn, kórtónlist og tónlistarsögu í háskólanum í Philadelphiu og Maine og seinna við Harvard háskóla. Muff fannst í fyrstu erfitt að kenna, en smám saman fóru hlutirnir að ganga betur. Skilaboð hennar til nemenda sinna voru þau að það væri ekki nægjanlegt að tónlistin væri góð, heldur yrði hver og einn að hugsa um hvaða boðskap hann vilji færa fram og segja hann á sinn hátt, en ekki eins og einhver annar.

Muff starfaði með hópi tónlistarkennara frá háskólum í Delaware og söng með mörgum hópum í Delaware, Maryland og Philadelphiu. Fyrst um sinn stjórnaði hún litlum kór sem flutti kirkjulega tónlist, en stofnaði síðan kór sem flutti madrigala. Leið hennar lá síðan til Boston þar sem hún gerðist atvinnutónlistarkona með Händel og Haydn society, sem var 24 manna kór söngvara og hljóðfæraleikara sem spilaði á upprunaleg hljóðfæri frá tímum Bachs og Beethoven. Hópurinn flutti tónlist eftir Bach, Beethoven, Mozart, Stravinsky/Pergolesi og Vivaldi og voru tónlistarmennirnir klæddir upp í búning í anda þess tíma.

Muff söng víða á ferli sínum einsöng, m.a. með Delaware Pro Musica, Händel and Haydn Society í Boston, Delaware Choral Society og kom fram í hlutverkum sem atvinnusöngvari í mörgum Gilbert og Sullivan-óperettum og leikritum eftir Maxine Klein við Little Flags Theatre, Boston. Í upphafi tónlistarferils síns söng hún aðallega sönglög eftir Schubert, og sagðist hafa gaman af því að hlusta á óperur en ekki sérstaka ánægju af því að syngja þær. Helst vildi hún syngja styttri lög sem kröfðust þess að hún myndi skapa smámynd og tilfinningu í söngnum. Það höfðaði til hennar að segja sögur í söngnum, til að mynda eins og í Álfakónginum eftir Schubert. Einnig kunni hún mikið af óratóríum, s.s. eins og Messías.

Sumir telja að Muff hafi haft í hófi gaman af því að koma fram og vera miðpunktur athyglinnar. Hvort sem það er satt eða ekki, er ljóst að hún vann ýmis störf sem flokka má sem „baksviðs“; sem framkvæmdarstjóri, ljósamaður, kórstjóri og kennari. Þó kom hún fram við ýmis tækifæri, bæði sem sagnaþulur, söngvari og tónlistarmaður.

Árin hennar á Íslandi – tónlistin, kennslan og ræturnar

En hvers vegna Ísland? Í viðtalinu í Glettingi segir Muff frá aðdraganda þess að hún flutti til landsins. Vinkona hennar, listfræðingurinn Louise Heite og eiginmaður hennar, fornleifafræðingurinn Ned, voru að leita sér að sumarvinnu á stað þar sem loftslagið væri svalara en í Delaware, sem væri að þeirra sögn „eins og að vera ofan í blautum svampi“, vegna rakans sem lá þar ætíð í loftinu. Louise og Ned Heite komu til Íslands – ef til vill af því ís var í nafninu – árið 1987 eða 1988 og urðu samstundist ástfangin af landinu. Ned sneri síðar aftur en Louise gerðist framkvæmdarstjóri Frú Láru á Seyðisfirði í þrjú ár og starfaði einnig sem kennari við Grunnskóla Seyðisfjarðar.

Einn daginn hringdi Louise Heite í Muff- sagði að sumrin á Íslandi væru miklu betri en í Bandaríkjunum og spurði hvort henni litist ekki á að koma og leysa organistann á Seyðisfirði af, þar sem hún væri að fara í barnseignarleyfi. Muff ákvað að breyta til og fara til Íslands og hingað kom hún í október 1997. Þegar hún kom til landsins var dimmt og kalt í Keflavík og í Reykjavík rigndi eins og hellt væri úr fötu. En á leiðinni niður Fjarðarheiði varð Muff ástfangin af landinu og ákvað jafnframt að ferðast eins mikið og hún gæti um landið og kynnast því betur. Hún stóð við þá ákvörðun, ferðast um allt landið þvert og endilangt og kynnti sér rækilega menningu þess og sögu. Muff lagði sig í líma við að kynnast bæjarbúum, íslenskri menningu og tónlist. Og ekki nóg með það, heldur fannst henni það skylda sín að gleðja íbúana með tónlist sinni og nýtti hún hæfileika sína óspart til að bæta mannlífið í þessu litla samfélagi.

Hvernig upplifði Muff Ísland? Hún skildi eftir sig safn bréfa og úr þeim er hægt að lesa hugleiðingar hennar um land og þjóð. Eftir þriggja vikna dvöl var Muff strax farin að hugleiða að dvelja hér til lengri tíma, eins og sést í bréfi hennar til vinkonu sinnar í Bandaríkjunum:

„Having been here only a short while, I am already considering staying longer than one year if another job comes open. The temptation to stay where I can actually indulge in my profession fulltime is very great, on top of the fact that teachers are treated very well here, and that I would love to have adequate time to explore the place.“

Þann 12. desember 1997 skrifar hún:
„Life is really fairly quiet here, as you can imagine. There is a lot of daily activity – businesses, boats loading and unloading, trawlers and draggers bringing fish in for distribution, sale, freezing or fish meal, and smaller boats bringing in fresh haddock. A boat-building and repair yard, hospital, smaller businesses and grocery stores, two gas stations – well, we have just about anything we need right here in town, so there is almost 100% employment of local folk. But after years of spending the better part of my life on the road going to and from work or gigs, it is wonderful to be within walking distance of everything, and within sights of wondrous high hills, waterfalls, a real fjord…“

Og í jólabréfi til vina og ættingja þann 21. desember 1997 segir:
„It´s approaching two months since I came here, and though my language is a long way from being perfect, it still feels very much like home. The land, stark in winter, is truly beautyful and its starkness allows one really to feel and know the amazing strength of the landforms. The many cascades and waterfalls, creeks and rivers, gushing and leaping down from the snow cover high atop these jagged volcanic peaks, all clear and cold over the black volcanic rocks, are so full of life, as is the whole place! The energy feels very good and strong, both in the place and in the people, and though we have so little daylight now, I don’t really notice the excess of darkness, and don’t respond to the dark in the same way I usually do at home.“

Hún var fljótt farin að nota „við“, þegar hún talaði um bæinn og upplifði sig greinilega sem eina af bæjarbúum, enda var hún opin og kynntist fólki auðveldlega. Sem dæmi um hve Muff var orðin mikill „Seyðfirðingur“ er að hún skráði íslenskar og seyðfirskar uppskriftir á erlendri heimasíðu á netinu. Þar var meðal annars að finna rabbarbarasultu, súkkulaði- og perutertu, kakósúpu og pönnukökur fyrir Sólarkaffi.

Maður spyr sig hvernig hún gat orðið svo stór hluti af lífinu á  Seyðisfirði. Hvernig stóð á því að hún vissi fljótlega hvað flestir hétu á Seyðisfirði? Svarið er einfalt. Hún teiknaði upp bæinn á tíu blaðsíður og merkti nöfn íbúanna inn á kortið, eins og sjá má á eftirfarandi uppdrætti.

muff_warden_blue_church_seydisfjordur_iceland_10

Mynd 10 og 11. Uppdráttur Muff af bænum og bæjarbúum, tvær af tíu blaðsíðum.

muff_warden_blue_church_seydisfjordur_iceland_11

Mynd 10 og 11. Uppdráttur Muff af bænum og bæjarbúum, tvær af tíu blaðsíðum.

muff_warden_blue_church_seydisfjordur_iceland_12

Mynd 12. Celtic-bandið; Guðni, Muff, Snorri, Eydís og Solla.

muff_warden_blue_church_seydisfjordur_iceland_13

Mynd 13. Muff árið 1998 í stofu Hrefnu og Björns Steinars, Akureyri.

muff_warden_blue_church_seydisfjordur_iceland_14

Mynd 14. Guðríður og Muff.

muff_warden_blue_church_seydisfjordur_iceland_15

Mynd 15. Muff í góðra vina hópi á Hótel Öldunni.

muff_warden_blue_church_seydisfjordur_iceland_16

Mynd 16. Muff skreytir nýtt hljóðfæri á námskeiði Listahátíð ungs fólks, Austurlandi.

muff_warden_blue_church_seydisfjordur_iceland_17

Mynd 17. Dýri Jónsson, nú framkvæmdarstjóri Vesturports og Muff.

 

Árið 2003 átti Muff stórafmæli, var sextug. Hélt hún upp á Stóra-Celidh hátíð á Seyðisfirði og hélt hundrað manna veislu, að hætti hinnar hjartastóru eðalkonu. Gestir voru beðnir um að koma með „lag, ljóð, dansskó og létt hjörtu“ og fékk við það tækifæri senda eftirfarandi vísu:

Vestan úr vestri
Villta hún kemur.
MUFF hér með mestri
mild’ okkur temur.

Í tilefni af merkisafmælinu stofnuðu vinir hennar hörpusjóð, sem Muff notaði til að kaupa sér forláta hörpu og varð henni til mikillar gleði.

Allir sem til Muff þekktu vissu að hún var mikil kattakona. Hún hafði átt ketti í Bandaríkjunum og eignaðist þá líka hér á Íslandi. Flestir Seyðfirðingar könnuðust við Brosa, Mýslu og Krúsilíus, sem áttu það til að týnast og var þá auglýst eftir þeim í kaupfélaginu. Orðalagið var eitthvað á þessa leið: „Brosi er týnd aftur! Ef þú sérð hana (hálsbönd er nú appelsínugull, en hvíta „bros“ er mjög klár) hafðu samband við Muff sem fyrst:472-1775/ 849-2744). Takk kærlega!“ Kettirnir hennar skiptu hana miklu máli og þegar hún fór í frí fylgdi nákvæm lýsing á mataræði og venjum „barnanna“ fyrir þá sem „pössuðu“ þá. Og ekki fengu kettirnir hennar Muff neitt nema það allra besta.

Ekki var setið auðum höndum á Íslandi. Frá 1997 starfaði Muff sem söngkona, undirleikari, tónlistar- og söngkennari á Seyðisfirði, Reyðarfirði, Egilsstöðum, Stöðvarfirði og Neskaupstað. Muff stofnaði árið 1998, ásamt samstarfsmanni sínum Sigurði Jónssyni, tónleikaröðina Bláu kirkjuna, sem betur verður skýrt frá síðar. Á búsetuárum sínum á Íslandi hélt hún einnig einsöngstónleika í Bláu kirkjunni með Steinunni Birnu Ragnarsdóttur píanóleikara, kom fram sem einsöngvari með Kammerkór Austurlands og kór Fjarðabyggðar og vann sem ljósameistari hjá Óperóstúdíói Austurlands. Muff var einnig stofnfélagi Félags íslenskra söngkennara.

Seyðisfjörður var syngjandi bær að áliti Muff, og naut hún þess að  fara á jólahlaðborð og þorrablót þar sem allir sungu. Einnig fannst henni ánægjulegt að sjá hve margir sýndu hljóðfærunum áhuga á Ceilidh-hátíðunum sem hún stóð fyrir árlega. Hún hafði áhuga á allskonar tónlist og eitt af áhugamálum hennar var að hlýða á og spila þjóðlega tónlist. Í Ceilidh-bandi Seyðisfjarðar, sem hún stofnaði, var leikin íslensk og skosk tónlist og þar naut Muff sín til fulls í nálgun sinni á þjóðlagatónlist. Harpan var þó hennar aðall og helsta yndi.

Rétt nafn Muff var Ethelwyn. Í fyrrnefndu viðtali við Ragnhildi Rós Indriðadóttur í Glettingi er nafnið útskýrt. Hún fékk gælunafnið Muff, sem hún sagði vera gamalt saxneskt nafn, strax sem ungabarn, sem styttingu á orðinu Ragamuffin, sem þýðir m.a. tötralegur krakki. Forfaðir Muff í föðurætt flutti frá Lancashire á Englandi til Bandaríkjanna árið 1636.  Það vita ekki margir að í bland við skosku ræturnar var Muff að hluta til af ættum indíána. Langafi hennar í föðurætt vann í Dakóta og flutti síðar til Oklahoma, þar sem verið var að úthluta landi til indjána og settist þar að árið 1893. Tíu árum seinna, þegar hann var 41 árs, giftist hann 19 ára konu frá Kansas, sem var hálfur indjáni, af Potawatomi ættbálknum, sem hraktist suður undan hvíta manninum frá Wisconsin um Illinois, Missouri og til Kansas, en þessi leið var kölluð „slóð dauðans“. Í viðtalinu í Glettingi minnist Muff þess að hafa séð mynd af langömmu sinni klæddri eins og hvít kona, brúnaþungri og alvörugefinni. Ef til vill hafði langamma Muff þá trú, eins og flestir indjánar, að ljósmynd tæki sál mannsins í burtu.

Móðurætt Muff var skosk, en voru í lok sautjándu aldar og í byrjun þeirrar átjándu búsett í Hollandi, þar sem þau breyttu nafni sínu úr Guthrie í Boerkicke, sem þýðir smábóndi. Móðurfólkið hennar var síðan í Þýskalandi í tvær kynslóðir og fluttu loks til Bandaríkjanna um 1850.

Muff átti rætur að rekja til suðurhluta Skotlands og Hálandanna og kynnti sig á tímabili með grænu nafnspjaldi sem á stóð: Ethelwyn Worden, singer and storyteller, classical/celtic/Scottish. Á þeim tíma sem nafnspjald þetta var prentað bjó hún í Limerick, Maine í Bandaríkjunum. Hún leit á sig sem sagnaþul, ekki síður en tónlistarmann, og sérhæfði sig í að segja sögur frá Íslandi, Skotlandi, frumbyggjum Ameríku, Nýja Englandi og af Keltum. Áður en hún flutti til Íslands kom hún fram sem sagnaþulur þar sem hún blandaði saman keltneskri þjóðsagnahefð við þjóðlagatónlist og fjölbreytta arfleifð sína, með röddina að vopni, og aðstoð gítars og keltneskrar hörpu. Á Íslandi hafði hún áhuga á að auka veg sagnahefðarinnar og voru hugmyndir uppi um samstarf á milli hennar og Hákons Aðalsteinssonar frá Vaðbrekku í Jökuldal, sem nú er einnig horfinn til feðra sinna.
Í blaðaviðtali sem birtist í Austurglugganum 6. júní 2002 kemur fram að Muff rannsakaði sögu og tónlist Skotlands, Íslands, Hjaltlands, Orkneyja, Vestureyja, Færeyja og Írlands. Muff hafði mikinn áhuga á keltneskum sögum, sem hún taldi leynast víða á Íslandi. Að hennar mati var margt sameiginlegt með þessum sögum. Selsögurnar voru margar sem líktust þeim keltnesku, til að mynda sagan um selinn í Páskahelli í Norðfirði, sem fer úr hamnum og dansar um sem manneskja tvisvar á ári. Sömu sögu er að finna á Orkneyjum og Shetlandseyjum og heitir hún þar „selkie story“. Muff taldi einnig að skrímsla- og tröllasögurnar á Íslandi ættu sér sameiginlega tvífara í írskum og skoskum sögum.

Menningararfur var henni mjög mikilvægur og hugur hennar stóð til að rannsaka ítarlega fyrrnefnd tengsl á milli landanna. Muff hafði ráðgert að dvelja í ár í rannsóknarleyfi í Skotlandi, frá haustinu 2006, en henni entist því miður ekki aldur til að ljúka því verki.

Upphaf Bláu kirkjunnar

Fljótlega eftir að Muff flutti til Íslands kviknaði sú hugmynd að koma af stað sumartónleikaröðinni Bláu kirkjunni í Seyðisfjarðarkirkju. Hún taldi kirkjuna vera sérstaklega fallega og fannst tilvalið að halda tónleika fyrir ferðamenn á sumrin, sem sóttu mikið í að skoða hana. Oft fá menn sömu hugmyndina á sama tíma, því í tölvubréfi frá Muff til Louise Heite kom fram að Sigurður Jónsson og María Gaskell hefðu árið áður fengið sömu hugmynd, en þá ekki komið henni í framkvæmd. Sigurður og Muff hófu upp úr þessu að þróa hugmyndina áfram og í kjölfarið var tónleikaröðin Bláa kirkjan stofnuð. Í bréfi heim til Bandaríkjanna 7. september 1998 lýsir hún hvernig hugmyndin kviknaði:

„Then one day I had an idea, as I was locking the church after a lesson or practice – this was at the end of April – that it would be nice if the church were open the night before the international ferry arrived, since the town would be full of tourists staying over to take the ferry. It would be nicer to have music playing, and maybe even nicer if it were live music. I mentioned it to my good friend and advanced organ student Siggi, and he said he and Maria (Englishwoman whose leave I was covering) had had the same idea a couple of years ago, but that nothing had come of it. We thought about it with much discussion, presented the idea to the church council who loved the idea and gave us their blessing, and then we leaped into action full-tilt, since by this time we only had a few weeks til June 3, when we wanted to begin. Normal people would have planned perhaps a 6-week series at most. We were definitely crazy and planned a 14-week season to coincide with all but the first and last dockings of the ferry…”

Ákveðið var að halda úti röð 14 tónleika á miðvikudagskvöldum í Seyðisfjarðarkirkju, frá júníbyrjun fram í byrjun september. Það kvöld var valið vegna þess að farþegaferjan Norræna var samkvæmt ferðaáætlun á Seyðisfirði þessi kvöld. Einnig töldu stofnendur tímasetninguna vera heppilega fyrir heimamenn.

Tónleikaröðin var rekin samkvæmt áætlun fyrsta árið, með mikilli sjálfboðavinnu skipuleggjenda. Fyrstu tónleikar ársins 1998 voru kostnaðarminni tónleikar heimamanna, en þegar leið á sumarið voru flytjendurnir meðal bestu og þekktustu tónlistarmanna á Íslandi. Tónlistin var fjölbreytt og sjá mátti á dagskránni skoska þjóðlagatónlist, léttan djass og fjölbreytta klassíska tónlist. Lokatónleikar ársins voru tileinkaðir tónlist frá Seyðisfirði, sérstaklega tónlist Inga T. Lárussonar.

Safnað var styrktarfé meðal fyrirtækja á Seyðisfirði og víðar til að standa straum af útgjöldum og það, ásamt aðgangseyri, dugði til að reka tónleikaröðina fyrsta sumarið. Helstu stuðningsaðilar fyrsta árið voru Austfar, Brattahlíð, Bókaverslun AB&ES, Bjólfsbær, Esso, Fjarðarnet, Ferðaþjónusta Austurlands, Gullberg, Heilbrigðisstofnunin á Seyðisfirði, Hótel Snæfell, Íslandsflug, Kaupfélag Héraðsbúa, Lögmannastofa Jónasar, Menningarsjóður félagsheimila, Menntamálaráðuneytið, Seyðisfjarðarbakarí, Seyðisfjarðarkaupstaður, Shell, Skagstrendingur hf., sóknarnefnd Seyðisfjarðarkirkju SR-Mjöl hf., Stál, Töggur og Vís. Ekki má heldur gleyma fjölda sjálfboðaliða á Seyðisfirði sem aðstoðaði stofnendur Bláu kirkjunnar við ýmiskonar viðvik og hvatningu til góðra verka jafnt þetta fyrsta ár sem og næstu árin.

Í upphafi var hugmyndin að hafa tónleikana óformlega og bjóða upp á  „open mike“, (vinsælt form í Bretlandi og Ameríku), sem Muff kallaði „frjáls framlög“, en var síðar breytt í „frjálsi hljóðneminn“ í dagskrá ársins 1998. Fyrirkomulag þessarar uppákomu var þannig að hver sem var gæti fengið með stuttum fyrirvara að koma fram og flytja tónverk, ljóð eða stutta sögu við upphaf tónleikanna. Þetta var ekki síst hugsað sem tækifæri fyrir efnilega tónlistarnemendur á svæðinu til að koma fram. Þó að þetta væri vel auglýst var það ekki fyrr en í lok tónlistartímabilsins að nokkrir aðilar komu fram með þessum hætti. Á tónleika sumarsins mættu 836 gestir.

Tónleikarnir vöktu strax mikla athygli og voru frá upphafi mjög metnaðarfullir. Þegar leið á fyrsta sumarið varð tónleikaröðin orðin vel þekkt um allt land eftir ágæta umfjöllun í fjölmiðlun. Fyrstu tvö sumrin voru árlega 14 tónleikar haldnir í tónleikaröð Bláu kirkjunnar og voru tónlistarmenn á Austurlandi meirihluti flytjenda. Fyrr en varði var orðin mikil eftirsókn frá tónlistarmönnum um allan heim að flytja tónlist í tónleikaröðinni og bárust fyrirspurnir bæði frá Íslandi og Evrópu allt til Norður-Ameríku.

muff_warden_blue_church_seydisfjordur_iceland_18

Mynd 18. Altari Seyðisfjarðarkirkju.

muff_warden_blue_church_seydisfjordur_iceland_19

Mynd 19. Sigurður Jónsson og Muff Worden, stofnendur tónleikaraðarinnar Bláu kirkjunnar.

muff_warden_blue_church_seydisfjordur_iceland_20

Mynd 21: „Fjórir vinir“ – Joacim Badenhorst, klarinetta, Ragnheiður (Heiða) Árnadóttir, söngkona, Ananta Roosen, fiðla og Simon Jermyn, gítar. Í tónleikaröðinni árið 2006.

muff_warden_blue_church_seydisfjordur_iceland_21

Mynd 22: Arna Kristín Einarsdóttir, flautuleikari og Elísabet Waage, hörpuleikari, flytja heimstónlist í tónleikaröð Bláu kirkjunnar árið 2006.

muff_warden_blue_church_seydisfjordur_iceland_22

Mynd 23:Muff og Elínrós Þorkelsdóttir.

 

Muff var allt í öllu í Bláu kirkjunni, skipulagði tónleika, tók á móti flytjendum, eldaði, hýsti og ferðaðist með þá um landið þvert og endilangt, sótti um styrki og lék undir og söng. Hún lagði allt sitt í tónleikaröðina og baráttuvilji hennar var slíkur að allir sem sáu tóku eftir. Árið 2000 ritar Garðar Cortes í gistibók Tungu, heimilis Muff:

„10/8 00.  Kæra Muff! Innilega til hamingju með „Bláu kirkjuna“. Þú ert ótrúlega dugleg. Einnig velkomin til Íslands, megirðu dvelja hér lengi, lengi og hjálpa okkur framávið með tónmenninguna og sönglistina.“

Muff gleymdi ekki að hugsa um eldri borgara á spítalanum á Seyðisfirði, sem áttu ekki heimangengt. Í hverri viku yfir sumartímann – og jafnvel oftar, skipulagði Muff tónleika á spítalanum, endurgjaldslaust. Voru tónleikarnir upphitunaræfing fyrir tónlistarmennina sem fluttu list sína í Bláu kirkjunni. Geta má nærri þakklæti eldra fólksins að fá að hlýða á fallega tónlist á stofnuninni. Var þetta lýsandi dæmi fyrir óeigingirni og hjartahlýju Muff Worden.

Árið 2000 var tónleikunum fækkað í 12 og árið 2001 í 10. Sá fjöldi tónleika hélst árið 2002 og sama ár hófst samstarf Bláu kirkjunnar við Norska daga á Seyðisfirði, með tónleikum Sigmunds Sæther, norsks harmonikkuleikara. Sú tenging varð að árlegum viðburði, sem og samstarf við Listahátíð ungs fólks, Austurlandi, og gospel-listamennina Pat og Eddie Cohee. Einnig stóð yfir í nokkur ár samstarf við Sumartónleika í Akureyrarkirkju.

Þrátt fyrir velgengni tónleikaraðarinnar Bláu kirkjunnar reyndist reksturinn talsverð fjárhagsleg áskorun. Árið 2004 var birt í Fréttaskjánum bréf frá Muff þar sem fjallað var um Bláu kirkjuna. Fyrirsögnin er „Hjálpar er þörf“. Muff skrifar þar að sumartónleikarnir hafi fengið mikið hrós þau sjö sumur sem þeir hafi verið starfræktir, en betur megi ef duga skuli. Mikil vinna standi á bak við að setja saman tíu tónleika á hverju sumri, sem sé bæði tímafrek og kostnaðarsöm. Þó að styrkir hafi náðst inn fyrir tónleikaröðina leggur hún áherslu á mikilvægi þess að fá stuðning heimamanna til að geta haldið henni áfram. Því hvetur hún heimamenn til að fjölmenna á tónleikana, sem séu ekki síst hugsaðir sem tækifæri fyrir unga tónlistamenn á Seyðisfirði til að sýna hvað í þeim búi.

Og þetta gekk allt saman upp. Heimamenn tóku við sér, tónleikaröðin festist enn frekar í sessi og er nú orðinn fastur hluti af menningarlífinu á Seyðisfirði – með ótal aðdáendur og fastagesti. Þann 30. júlí 2006, mánuði fyrir andlát sitt, skrifar Muff vini sínum í Bandaríkjunum:

„So far, the concert series has been going very well and has been very well-attended, with folks walking out humming this and that, or showing enthusiasm for what they have heard. Audiences have been international, as usual, and the good atmosphere has extended to the many tourist- and local-oriented places in town, including the cultural centre and bistro, the pub, the hotel with its various buildings and superb Danish chef, menu and service, handwork shops, galleries, sports centre and so on….“

Hringnum var lokað. Muff hafði tekist ætlunarverk sitt og fór sátt frá góðu verki.

Merkiskonu minnst

Muff átti frá árinu 1992 við alvarlegan lungnasjúkdóm að stríða, sem meðal annars kom fram í mikilli mæði. Síðustu árin þurfti hún að hafa súrefniskút tiltækan nótt sem nýtan dag og þann 25. ágúst árið 2006 fékk Muff hjartaáfall, sem dró hana til dauða. Þá var hún akandi með vinkonu sinni í Færeyjum og hafði kosið að bíða í bílnum á meðan samferðarkona hennar fór inn á safn. Muff átti friðsælt andlát, sitjandi í bílnum í vegkantinum. Hún var sextíu og þriggja ára þegar hún lést og var útför hennar gerð frá Seyðisfjarðarkirkju 7. september 2006.

Eftir andlát hennar kom í ljós að hún hafði haldið bréfasambandi við ótal einstaklinga út um allan heim. Fráfall hennar hafði áhrif á fólk víðsvegar í heiminum, sem lét á internetinu í ljós eftirsjá eftir þessari merku konu og sorg yfir ótímabæru fráfalli hennar. Margir nefndu að þeir myndu sakna langra og skemmtilegra bréfa hennar, þar sem hún lýsti landanum og lífinu á Íslandi eins og henni einni var lagið.

Muff fór alltof fljótt. Hún átti eftir að gera svo margt og lifa svo miklu lengur.

Í minningarorðum á heimasíðu Félags íslenskra söngkennara minnist Signý Sæmundsdóttir söngvari látinnar vinkonu sinnar með hlýju. Þar segir að Muff hafi tekið ástfóstri við Seyðisfjörð, hafi verið einstök manneskja, hjartahlý og sterk persóna, með skemmtilegan húmor, hamhleypa til allra verka, ósérhlífin og fylgin sér. Hún hafi átt auðvelt með að kynnast fólki og borið virðingu fyrir öðrum. Muff hafði mikinn áhuga á ættfræði og gat rekið ættir fólks langt aftur. Signýju var sérstaklega minnistætt þegar Muff ók henni eitt sinn á flugvöllinn og þekkti þar alla, veifaði glaðlega, gat rekið ættir viðkomandi og bætt ýmsum öðrum fróðleik við.

Presturinn Steve Ellis í Boston, Philadelphiu, kvaddi Muff með hlýjum orðum. Hann minnist þess að hún hafi strax á unga aldri vakið athygli fyrir einstaka tónlistarhæfileika sína og ást sína á tónlist. Sagði hann Muff hafa verið náttúrubarn, sem var stolt af uppruna sínum, sjálfstæð og borið mikla umhyggju fyrir köttunum sínum. Bros hennar og hlátur heillaði fólk sem hún hitti á lífsleiðinni, en þrátt fyrir félagslyndi sitt telur hann Muff á vissan hátt hafa verið einfara.
Steinunn Birna Ragnarsdóttir, píanóleikari, var náin Muff og minnist hennar með  kærleika:

„Hún tók mér opnum örmum þegar ég gerðist organisti í Swedenborg kirkjunni í Boston sem hún stýrði með dugnaði og stórhug sem reyndar einkenndi allt sem hún tók sér fyrir hendur. Ég hélt að hún væri að gera at í mér þegar hún hringdi og sagðist vera sest að á Seyðisfirði en það rann fljótt upp fyrir mér að svo var ekki því að allur heimurinn var hennar heimili hvort sem það var á austfjörðum Íslands eða í fjallaþorpi einhvers staðar í Langtíburtistan. Hún hafði óþrjótandi orku og framkvæmdagleði sem var mér mikill innblástur og hvatning. Hún gaf mér lítinn útskorin engil sem ég geymi í glugganum mínum og ég hugsa til hennar á hverjum degi. Mér finnst ekkert ólíklegt að hún vaki yfir okkur og skemmti sér oft konunglega yfir öllu saman. Það voru forréttindi að eiga Muff Warden sem vin.”

Þóra Fríða Sæmundsdóttir píanóleikari hitti Muff stundum hjá Signýju systur sinni, en þar gisti hún oft þegar leið hennar lá til Reykjavíkur. Á þeim tíma var Muff svo að segja bundin við súrefniskút, en lét það ekkert stoppa sig, spilaði á hörpuna fyrir heimilisfólkið og smitaði út frá sér einstaklega jákvæðu andrúmslofti.

Einn daginn kom fullorðin móðir systranna í heimsókn um leið og Muff, en það skipti engum togum, þær drifu sig tvær í bíó hún og Muff, þó þær hefðu aldrei hist áður – og Muff dragandi á eftir sér súrefniskútinn eins og ekkert væri eðlilegra. Að sögn Þóru Fríðu hafði Muff stórt hjarta, vakti eftirtekt hvert sem hún fór og eignast góða vini hérna á Íslandi.

Hjónin Hrefna Harðardóttir, leirlistarkona og Björn Steinar Sólbergsson orgelleikari, sendu Muff heitinni fallega orðsendingu, sem vonandi svífur í gegnum tíma og rúm til hennar:

„Já, hæ mín kæra, hvernig gengur þarna hjá þér í Muff-heimum?? Vona að þú hafið það gott og sért í dýrðlegri sælu, umvafin ættingjum og vinum, listum og menningu og allskonar unaði, því þú átt það svo sannarlega skilið.

En okkur fannst þú eiginlega hafa farið frá okkur allt of snögglega og vorum sannarlega ekki tilbúin að kveðja. Allar áætlanir þínar voru svo áhugaverðar og við vorum einmitt farin að hlakka til þess að heyra hvaða gersemar þú myndir finna á ferðinni um land formæðra þinna og feðra.

En allt gott tekur enda og við þökkum vináttu, virðingu, gestrisni og gott samstarf milli tónleikastarfs Bláu kirkjunnar og Sumartónleika í Akureyrarkirkju sem stóð yfir í nokkur ár. Og ennfremur þakka ég síðustu stundirnar sem við áttum á Handverkshátíðinni að Hrafnagili um miðjan ágúst 2006 þar sem við báðar vorum að sýna hljóðfærasafn okkar og þú söngst og spilaðir á hörpurnar og flauturnar, meðal annars íslensk þjóðlög; s.s. „Hættu að gráta, hringaná, heyrðu kveðju mína“…
Já, við heyrðum kveðju þína kæra Muff, og þessi fallega hljóðmynd lifir í minningunni.

Takk fyrir að fá að kynnast þínum litríka og gjöfula persónuleika og megi starf þitt allt á Seyðisfirði og víðar halda áfram að blómstra og dafna.  Vertu sæl og takk fyrir allt.“

George Hollanders, leikfangasmiður í Eyjafjarðarsveit, og fjölskylda hans, sendu minningarorð um Muff:

„We met Muff for the first time as an accompanying guest at Gásir in Eyjafjord. There she immediately found herself a role as part of the live musicians scattered around the beach that accompanied a dance performance. The sound of her magnificent voice that seemed to come out of the sea right behind her can be described as the Universal Muff who, to me and my family, has been a dear friend warming us with her intense love for life, people and general curiosity. Muff is definitely one of the people who showed us that we can create our own reality and I think we remember her best by just doing that…may her soul rest in peace.“

Einar Bragi Bragason, saxófónleikari og skólastjóri Tónlistarskóla Seyðisfjarðar starfaði með Muff í tæpan áratug og segir:

„Muff Worden er varla hægt að lýsa í fáum orðum…..en Dugnaður …Kjarkur…..og ósérhlífni koma upp í huga mér….“

Aðalheiður Borgþórsdóttir, ferða- og menningarmálafulltrúi á Seyðisfirði, var góð vinkona Muff og saknar nærveru hennar í dagsins önn. Þær bæði kenndu saman í tónlistarskólanum og störfuðu saman að ýmsum uppákomum og viðburðum. Aðalheiður stundaði einnig um tíma söngnám hjá henni og lýsir sem hjartahlýrri, umvefjandi og traustri manneskju, einstaklega ósérhlífinni og hjálplegri.

Fjölskylda Aðalheiðar varð fljótt að fjölskyldu Muff á Íslandi. Þau eyddu saman jólum og áramótum, afmælum og áfangasigrum. Guðrún Andersen, móðir Aðalheiðar, og Muff ferðuðust saman um landið, meðal annars til Vestmannaeyja. Börnin á heimilinu buðu henni í afmæli og hægt er að að lesa úr bréfunum til Bandaríkjanna hve mikilvæg þessi tengsl voru henni.

Muff innti af hendi sjálfboðaliðastörf fyrir Bandaríska sendiráðið á Íslandi og var hlutverk hennar að vera „líflína“ á milli sendiráðsins og bandarískra ríkisborgara sem bjuggu á Austurlandi. Var henni sérstaklega þakkað óeigingjarnt starfs sitt í þágu sendiráðsins í minningarorðum í fréttabréfi sendiráðsins í nóvember 2006.

Nemendur Muff voru einnig margir hverjir óhuggandi við fráfall kennara síns, enda gaf hún meira af sér en flestir áttu að venjast og fyrir vikið eignaðist hún nána og góða vini. Katla Rut Pétursdóttir, einn af nemendum hennar á Seyðisfirði, segir:

„Ég sakna Muff ennþá, hennar stuðningur í söngnámi mínu var mér ómetanlegur og fæ ég henni það aldrei fullþakkað. Hún kom eins og ferskur andblær inn í líf Seyðfirðinga, jafnt unga sem aldna og markaði sín spor á okkur öll.“

Muff var óþreytandi að kynna Ísland og Seyðisfjörð sem áfangastað og skrifaði langar lýsingar í tölvupósti og á heimasíðu sinni á daglegu lífi á Íslandi. Stíll hennar var hrífandi og fundist hefur fjöldi útprentaðra tölvubréfa þar sem hún hafði raðað upp bréfum frá 1998-2005. Var hún að halda til haga upplýsingum um lífsstarf sitt, til að taka mætti það saman síðar?

Muff sendi vinkonu sinni í Bandaríkjunum jólakveðju í desember 2001, sem lýsti vel hvernig heimi hún vildi lifa í:

„And Merry Christmas to you! And I echo your wishes for a peaceful and safe 2002 for the whole world. I pray that people everywhere will try to stop hating and start loving, to stop taking and start sharing, to stop screaming and start listening, to stop fearing and start caring. Now is that too much to ask?“

Muff hafði skilið eftir sig erfðaskrá – bréf – þar  sem útlistað var hvernig hún vildi að veraldlegum eigum hennar yrði ráðstafað. Þar var hlý kveðja frá henni til íbúa Seyðisfjarðar, sem Muff lýsti oft í bréfum sínum sem paradís á jörð. Hún hafði búið svo um hnútana að skilaboðin kæmust til Seyðfirðinga og í jarðarförinni var lesinn upp þessi kafli:

„Mér félli betur að allir íbúar Seyðisfjarðar fengju að vita að það hefur verið dásamlegt að búa hér og taka þátt í þessu frábæra samfélagi. Takk fyrir þennan yndislega tíma, skemmtun alla, samfelldan velvilja og hjálp. Takk fyrir stuðninginn við Bláu kirkjuna, sem ég vona að haldi áfram. Ég vona að bærinn eflist á besta hátt undir leiðsögn bæjarráðs, sem skipað sé hjartahlýjum einstaklingum sem fyrst og fremst hugsi um viðgang bæjarins og tryggi framtíð hans.“

Einnig óskaði hún eftir því að jarðneskar leifar sínar yrðu brenndar og öskunni dreift á línu á milli Þórarinsstaða og Brimness á Seyðisfirði.

Að frumkvæði Félags íslenskra tónlistarmanna voru haldnir minningartónleikar um Muff, þann 1. október 2006 í Seyðisfjarðarkirkju og Eskifjarðarkirkju. Gunnar Kvaran sellóleikari og Selma Guðmundsdóttir píanóleikari léku á tónleikunum lög eftir Couperin, Schubert og Schuman. Í fréttatilkynningu vegna tónleikanna kom fram að Félag íslenskra tónlistarmanna vildi heiðra minningu þessarar merku tónlistarkonu, sem lagði drjúgan skerf til uppbyggingar og eflingar tónlistarlífs og tónleikahalds á Austurlandi. Allur ágóði rann í styrktarsjóð til stuðnings tónleikaraðarinnar Bláu kirkjunnar. Einnig hélt Jónas Ingimundarson, listrænn ráðunautur Bláu kirkjunnar, tónleika í Seyðisfjarðarkirkju þann 4. ágúst 2007. Tónleikarnir voru helgaðir minningu Muff Worden og á efnisskránni voru verk eftir Ludvig van Beethoven.

muff_warden_blue_church_seydisfjordur_iceland_23

Mynd 24: Muff þenur nikkuna. Þetta er líklegast síðasta myndin sem tekin var af Muff, á Norskum dögum í ágúst 2006.

muff_warden_blue_church_seydisfjordur_iceland_24

Mynd 25. Muff í nágrenni Þórarinsstaða. Í baksýn sést yfir hafið, þar sem hún óskaði eftir að hvíla.

muff_warden_blue_church_seydisfjordur_iceland_25

Mynd 26. Muff og Garðar Eymundsson syngja á tónleikum Bláu kirkjunnar í Seyðisfjarðarkirkju.

muff_warden_blue_church_seydisfjordur_iceland_26

Mynd 27. Vorlag fyrir hörpu, lag eftir Muff Worden.

OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Mynd 28. Jarðarför Muff.

muff_warden_blue_church_seydisfjordur_iceland_28

Mynd 29. Minnismiði Muff. Úr honum má lesa ýmislegt sem hún taldi einkenna sig sem karakter.

Á sérstakri undirsíðu vefseturs Bláu kirkjunnar má hlýða á hljóðskrár þar sem söngvarinn Bergþór Pálssonar minnist Muff Worden.  Einnig er hægt að hlusta á ómetanlegar upptökur, þar sem Muff Worden syngur dúett með Florian Keller og undirleik Aladar Racz. Florian Keller gaf Bláu kirkjunni góðfúslegt leyfi til að nota upptökuna og kunnum við honum góðar þakkir fyrir.

Muff Worden, Íslandsljómi, við minnumst þín, uppátækja þinna, gleði, tónlistar og krafti, með bæði „þungu“ og „léttu hjarta“. Blessuð sé minning þín og megi hún lifa í tónleikaröðinni Bláu kirkjunni og hugum okkar um ókomin ár.

Stjórn tónleikaraðarinnar Bláu kirkjunnar,
Aðalheiður Borgþórsdóttir
Guðríður Ágústsdóttir
Sigurður Jónsson

Rannveig Þórhallsdóttir tók saman fyrir Bláu kirkjuna, með góða nærveru Muff, söng og hlátur í sinni.