Sumartónleikaröðin Bláa kirkjan var sett á stofn árið 1998 af Muff Worden og Sigurði Jónssyni. Tónleikaröðin er mikilvægur hluti af mannlífinu á Seyðisfirði á sumrin.

Tónleikarnir fara fram í Seyðisfjarðarkirkju á miðvikudagskvöldum í júlí og fram í ágúst. Frá upphafi hefur verið lögð áhersla á að bjóða upp á fjölbreytta tónleika með klassískri tónlist, djass og blús, þjóðlagatónlist og tónlist af léttara taginu. Flytjendur eru alla jafna íslenskt tónlistarfólk í fremstu röð og framúrskarandi erlendir flytjendur. Einnig hefur ungu og efnilegu tónlistarfólki verið gefinn kostur á því að koma fram á tónleikum í Bláu kirkjunni.

Tónleikagestir geta notið þess sem staðurinn hefur upp á að bjóða í afþreyingu, veitingahúsum í nágrenninu eða gengið um gamla bæinn og skoðað náttúruna allt um kring.

Seyðisfjarðarkirkja þar sem tónleikarnir fara fram í sínum bláa lit fyrir enda „regnbogastrætisins“ Norðurgötunnar er einstakt kennileiti á Seyðisfirði og raunar á öllu austurlandi.