Tónleikaröðin fagnar í ár 20 ára starfsafmæli sínu og minnist um leið annars stofnanda hennar, Muff Worden, sem lést árið 2006, langt um aldur fram.  Í ár verða fjórir tónleikar auk sérstakrar minningardagskrá um Muff. Dagskráin er fjölbreytt og allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Tónleikar verða á miðvikudagskvöldum í Bláu kirkjunni á Seyðisfirði og hefjast stundvíslega kl. 20.30.

Olga Vocal Ensemble ríður á vaðið með tónleikana It’s a Womans World þann 4. júlí þar sem kvenkyns tónskáldum og flytjendum verður gert hátt undir höfði. Þann 11. júlí mun alþjóðlega þjóðlagatríóið Tourlou music flytja eigin útsetningar á þjóðlögum héðan og þaðan úr Evrópu og víðar. Þá stígur á stokk Magga Stína ásamt félögum þann 18. júlí og flytur frumsamda tónlist í bland við annarra. Síðustu tónleikarnir verða þann 25. júlí en þá koma svarfdælsku systkinin Ösp og Örn Eldjárn ásamt ítalska fiðluleikaranum Valeria Pozzo og flytja tónlist eftir sig.

Þann 1. ágúst verður flutt minningardagskrá um Muff þar sem tónlist í bland við önnur atriði verður flutt og sagt frá ævi Muff og störfum. Tónlistarmennirnir Bergþór Pálsson, Diddú og Anna Guðný Guðmundsdóttir sjá um tónlistarflutninginn.

Verið velkomin í Bláu kirkjuna.